GLER
Ég veit ekki hvort þú veist það, en ég er búin til úr gleri. Ég er brothætt og það hefur meira að segja kvarnast úr mér áður. Þess vegna dúða ég mig. Þess vegna þarf ég að hafa þessa fitu utan á mér, svo ég brotni ekki alveg í tætlur. Ég er sko brotin fyrir innan, það eru sprungur. Ég er að brotna en ég mun ekki brotna því ég er dúðuð. Þó ég brotni innan frá þa mun ég ekki brotna að utan því það kemst ekkert út. Ekkert út og ekkert inn. Gler. Ég er gler í vatni, þú sérð mig ekki. Ég er ósýnileg. Ósýnilegt gler í vatni. Það sér mig enginn nema Hann. Hann með stóru há-i. Við pössum saman því ég er Hanna og Hann er Hann. Það er eins og tvær hliðar á einum teningi. Hann innsiglar mig. Og ég þarf ekki að hafa áhyggjur af heiminum. Heiminum fyrir utan dúðunina. Ég get ekki brotnað því það er bara Hann sem getur brotið mig og Hann myndi aldrei gera það. Hann myndi aldrei brjóta mig. Hann myndi aldrei. Hann myndi. Hann. Hann. Hann.